Sigrún Emilía

SEE

er lík pabba sínum að mörgu leyti. Eins og áður sagði kippir hún sér ekki upp við smáatriði en verður öskureið þegar hún verður reið. Hún er ægilega forvitin og mjög áhugasöm um tölvuna, iðar öll í skinninu þegar hún kemst nálægt henni. Henni finnst gott að borða og finnst banani nammi. Hún kann meira að segja að breika - tekur orminn á gólfinu hvað eftir annað líkt og pabbi hennar -aka Eiki breik- gerði forðum. Það sem gerir útslagið er þó án efa rimlarúmsátið...


Meira meira

c_documents_and_settings_eirikur_my_documents_my_pictures_2006_910_oktober_2006_2006_10_22_img_5089.jpg

Endalaus afmæli í familiunni og nú er matti minnstur orðinn 6 mánaða hvorki meira né minna. Þá er líka kominn tími til að borða graut og fleira góðgæti sem Sigrúnu Emilíu líst aldeilis vel á og pabba ekki síður... Annars allt gott að frétta, þó er Sólveig Halla lasin og mamma farin að skipuleggja jólin.

Bæ í bili.


Ammælisstelpan hin eldri

5 ára

Þá er Sólveig Halla orðin 5 ára. Það var svaka fjör hérna á Hjarðarhaganum í gær, stanslaus dagskrá frá tvö um daginn til átta um kvöldið - það dugar ekkert minna fyrir svona merkilegt tilefni. Afmælisstúlkan var aldeilis ánægð með daginn, fékk afmælisköku á þremur hæðum og hefur að eigin sögn aldrei fengið svona flottar afmælisgjafir. Meðal annars vakti amma SHG mikla lukku: "amma þú ert geggjað snilld!" heyrðist þegar prinsessunammið kom í ljós upp úr pakkanum. Sólveig Halla var líka mjög fegin að fá stærra hjól - henni leist nú ekki á þegar móðir hennar stakk upp á því að hún myndi bara stela hjóli eins og Lotta ef hún fengi ekki nýtt í afmælisgjöf - en gamla hjólið er orðið alltof lítið. Fjórar skvísur eru orðnar ansi þaulsetnar hérna á heimilinu og farnar að þreyta foreldrana en Sólveig Halla fær víst seint nóg af því að hafa þær Mjallhvíti, Öskubusku, Þyrnirós og Fríðu allt í kringum sig - svo ætli við leyfum þeim ekki að vera eitthvað áfram. Vonum bara að Sólveig Halla vaxi upp úr prinsessudraumunum á réttum aldri og reyni aldrei að verða fegurðadrottning....

Ma+pa eru mjög stolt af stelpunni sinni sem er ennþá jafn stór, dugleg, skemmtileg, klár og falleg og hún hefur alltaf verið. Sigrún Emilía er einnig einlægur aðdándi systur sinnar en á þeim bænum kemst enginn með tærnar þar sem Sólveig Halla hefur hælana.


Kóngsins Köben

Mía í Nýhöfn

Þá erum við komin heim eftir skemmtilegt ferðalag sem gekk vel. Höfðum það ægilega notalegt í Lundi og Kaupmannahöfn, Sigrún Emilía stóð sig vel og það var nú ekki sérstaklega mikið fyrir henni haft. Verð þó að segja að við foreldrarnir vorum orðin þreytt á að leita að reyklausum kaffihúsum í Köben og að rölta um í rokinu af því við gátum hvergi sest inn.

Sólveig Halla hafði það aldeilis gott hjá ömmu og afa á meðan, hafði engan tíma til að tala við okkur þegar við hringdum því hún var að borða snúð og naglalakka ömmu sína.

Næst á dagskrá er auðvitað atburður ársins: 5 ára afmæli á sunnudaginn. Geri því ráð fyrir að afmælisbarnið verði í fyrsta sæti í næstu færslu hérna hjá la familia....


Þetta dagsdaglega

img_4802.jpg

Þá er mamman búin að sitja sveitt við að færa myndirnar af moggablogginu yfir í lokaða albúmið og er verkinu loksins lokið. Myndirnar eru nú allar undir tenglinum "Myndirnar okkar" - sendið endilega tölvupóst ef þið viljið fá lykilorðið, sillabjorg@hotmail.com Eina albúmið sem er eftir á þessari síðu eru afmælismyndirnar hennar Míu sem sýna hvað hún stækkar mikið milli mánuða.

Það er allt gott að frétta af fjölskyldunni, enginn hefur verið lasinn í næstum því mánuð og erum við öll glöð með það. Það er nóg að gera hjá okkur öllum í þessu daglega, tíminn flýgur áfram og Matti minnsti er orðinn fimm mánaða þó hún sé nýfædd. Sigrún Emilía er varla ungabarn lengur, hún er orðin ákveðin ung stúlka sem unir sér best innan um sem mest af fólki og leikföngum. Hún vill alls ekki liggja í fanginu í rólegheitunum, hún verður að fá að sitja eins og montrass eða velta fram og til baka á gólfinu þangað til hún festist undir stól. Þá er öskrað af óþolinmæði og ó boy getur barnið gargað! Öllum til mikillar undrunar er Sigrún Emilía með rosalega rödd sem hún ákvað að halda útaf fyrir sig fyrstu fjóra mánuðina en leyfa svo fjölskyldunni og öllum hinum í húsinu að njóta. Það lítur út fyrir að hún hafi erft skapið frá pabba sínum, er ekkert mikið að kippa sér upp við hlutina öllu jöfnu en þegar hún verður reið þá verður hún reið. Svo er hún á fullu að læra að synda og finnst það ekki leiðinlegt. Sólveig Halla er komin með tvær fullorðinstennur 4 ára gömul, ætlar greinilega að drífa í þessu stelpan. Aðal sportið þessa dagana er að hitta vinina eftir leikskóla og leika og leika. Hún hittir Jóel oftast því hann á heima í sama húsi og þau eru dugleg að fara með gamla indíánatjaldið hans Sverris frænda út í garð. Hún er líka byrjuð aftur í ballett og finnst það ótrúlega skemmtilegt.

Mamman og pabbinn eru annars róleg í tíðinni, hið almenna heimilishald á hug okkar allan þessa dagana. Skruppum reyndar í bíó á föstudaginn og sáum Volver og fengum smá Madridarfílíng, það er alltaf jafn gaman. Svo erum við auðvitað komin af stað til Lundar í huganum en tilhlökkunin er alltaf helmingurinn af ferðalaginu... Við förum sem sagt til Lundar og Köben eftir viku og Sólveig Halla ætlar að vera hjá afa og ömmu í Rauðalæk á meðan.

Verð svo að lokum að lýsa yfir eindregnum stuðningi við Ómar Ragnarsson - finnst verst að hafa ekki komist í gönguna áðan en framtakið er stórkostlegt og ég vona að ég fái einhvern tíma tækifæri til að leggja mitt af mörkum.

Þá held ég það sé bara komið í bili...

Bestu kveðjur af Hjarðó


Frasinn

Kálhaus

Sólveig Halla fer á kostum þessa dagana með svakalegum tilraunum til að leggja áherslu á mál sitt. Hún hefur meðal annars verið skítþyrst og ísheitt. Ó mæ god er líka nokkuð vinsæll frasi.

Svo er alltaf verið að jóka en prump er alveg það fyndnasta. Hún er mjög áhugasöm um það hvort foreldrar hennar hafi aldrei notað kú og pi orðin þegar þau voru krakkar og hvaða áhrif það hafi haft á jólasveininn og vini hans.


Jæja

Við Gullfoss

Þá er óhætt að segja að sumarfríinu sé formlega lokið. Dagskráin var nokkuð þétt og skemmtileg: Fjórar ferðir í sumarbústaði, Hornafjörður og Holta- og Landsveit og helmingurinn af fjölskyldunni fór á ættarmót á Snæfellsnesi. Á sínu 4 mánaða æviskeiði hefur Sigrún Emilía komið til Akureyrar, í Landmannalaugar og langleiðina inn í Lónsöræfi, séð Gullfoss og Geysi, Jökulsárlón og Seljalandsfoss, farið í berjamó, sund, tvisvar að Sólheimum og 6 sinnum í Hvalfjarðargöngin. Geri aðrir betur. Auk þess hefur hún þyngst um 3 kíló, lært að velta sér og sitja í stutta stund, fengið kvef og eyrnabólgu, hlegið ógurlega að systur sinni og aðeins minna að mömmu. Næst á dagskrá er að klippa lubbann, sundnámskeið hjá Snorra og ferð til Kaupmannahafnar í október.

Sólveig Halla er aftur á móti búin að missa fyrstu tönnina og er með aðra laflausa. Móðurinni fannst það heldur snemmt þar sem litla barnið hennar er bara 4 ára en svo heppilega vildi til að tannsi kom í heimsókn sama dag og staðfesti að þetta væri alveg eðlilegt. Í fyrsta lagi en eðlilegt samt. Sólveig Halla er búin að vera 2 vikur á nýju deildinni sinni, Fuglalandi, sem er fyrir elstu krakkana á Hagaborg. Hún þekkir orðið ansi marga stafi, getur skrifað nafnið sitt nánast hjálparlaust og kann að leggja saman með fingrunum. Hún er með ólíkindum góð við systur sína og sér henni fyrir endalausu skemmtiefni, nema þegar Mía er búin að kúka, orgar mjög hátt eða rífur í hárið á henni. Sólveig Halla hlakkar mikið til að verða 5 ára, hún er búin að fá skrilljón hugmyndir að afmæliskökum og pantar göt í eyrun.

Búið er að setja inn myndir úr sumarfríinu inn í nýtt myndaalbúm, tengillinn er í tenglalistanum undir myndaalbúm. Albúmið er lokað en endilega sendið tölvupóst ef þið viljið fá lykilorðið og skoða.


Afmæli 3 af 12

Ammæli

Sigrún Emilía á þriggja mánaða afmæli í dag og fékk sér súkkulaðiköku í tilefni dagsins.


Skírn

Ömmgurnar

Sigrún Emilía var skírð í Neskirkju 13. júlí. Séra Örn Bárður skírði hana og amma Agnes hélt á henni undir skírn. Stúlkan var ægilega góð að venju, fékk sér smá kríu á meðan á athöfninni stóð og lét ekki í sér heyra. Hún ákvað daginn eftir skírnina að velta sér yfir á magann og nú getum við varla lagt hana frá okkur án þess að hún snúi sér í allar áttir. Því miður er hún ekki ennþá búin að fatta hvernig hún kemst til baka og er því eins og selur á þurru landi, með hendurnar fastar undir bumbunni. Í fyrradag uppgötvaði hún svo hvað mamma hennar er óborganlega fyndin og hló í fyrsta sinn.

Annars er allt gott að frétta af fjölskyldunni fyrir utan smávægileg veikindi á eldri heimasætunni. Henni verður vonandi batnað þegar við förum í sveitina eftir helgi en hún er orðin spennt eins og foreldrarnir að komast burtu úr bænum.


Júlí

SHE og langamma

Við erum svolítið fúl hérna á Hjarðarhaganum af því að sumarið hefur látið á sér standa en gerum okkar besta þegar sólin lætur sjá sig. Loksins létum við verða af því að kaupa systkinapall á vagninn fyrir Sólveigu Höllu og nú er ekkert sem stöðvar okkur í göngunum. Í dag gengum við Sigrún Emilía tvisvar sinnum fram og til baka á Seltjarnarnesið og Sólveig og Arnar voru með okkur í annarri ferðinni. Við heimsækjum gjarnan ömmu Sillu á ferðum okkar en hún er dugleg að gefa okkur eldri systrunum pönnsur, kleinur og annað góðgæti...

Sigrún Emilía stækkar og stækkar, er komin með fín Súðavíkurlæri og stefnir í að verða sama litla hlussan og systir hennar var. Hún er oftast mjög skapgóð og ljúf en getur sko aldeilis látið í sér heyra ef hún verður reið, sérstaklega ef það þarf að setja nefdropa í nebbann á henni. Hún unir sér einna best á teppinu þar sem hún tekur þvílíkum framförum, það er ekki nóg með að hún sé farin að teygja sig í dinglandi dótið, hún nær líka þvílíku gripi og hefur náð að stinga því upp í sig og smjattað á því - sjálfri sér til mikilli ánægju.

Svo er mikið framundan eins og venjulega. Kristín og þýska fjölskyldan okkar koma til landsins á morgun og þá er nú líklegt að það verði mikið um að vera. Um helgina leggja feðginin upp í ferðalag eina ferðina enn og halda á ættarmót á Snæfellsnesi en mamma og Sigrún Emilía nenna ekki í tjald svona alveg strax og halda sig því heima á meðan. Sólveig Halla byrjar líka í fríi á leikskólanum á föstudaginn og verður til 14. ágúst en þá fer hún á nýja deild, Fuglaland, þar sem stærstu krakkarnir á Hagaborg eru en hún tilheyrir víst þeim hópi næsta vetur þó foreldrarnir eigi erfitt með að trúa því...

Búin að setja inn fullt af nýjum myndum í júní og júlí myndaalbúmin. Við setjum svo inn nýjar myndir úr sumarfríinu þegar við komum til baka úr ferðalagi um landið.

Hafið það gott öll sömul þangað til og njótið sumarsins sem hlýtur að fara að koma...

Svalur Silla, Eiki, Sólveig Halla og Sigrún Emilía.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband