24.9.2007 | 07:39
Er ekki fljótlega örugglega komið?
(Ein gömul síðan í sumar....) Allt í partý á Hjarðó eins og vanalega - allir í svaka sumarstuði enda ekki hægt annað í veðurblíðunni. Aldrei þessu vant er besta spáin fyrir Reykjavík í marga, marga daga í röð - og ég að byrja í fríi eftir helgi!
Sólveig Halla er útskrifuð af Hagaborg og við vorum öll soldið sorgmædd í familiunni af því tilefni. En tilhlökkunin eftir að byrja í skólanum er samt sterkari og SHE er sko alvega svakalega tilbúin. Hún er búin að fara á sundnámskeið í sumar og er núna á leikjanámskeiði hjá KFUM og KFUK með Sonju frænku - geggt gaman eins og hún segir sjálf. Hún var reyndar pínu hneyksluð til að byrja með að þurfa að biðja til guðs áður en hún byrjaði að borða - fannst það greinilega glatað- en það vandist fljótt og nú gengur hún um allt og syngur ég er hermaður krists- foreldrum sínum til ómældrar ánægju...
Sigrún Emilía er með foreldra sína algjörlega í vasanum og reyndar flesta í kringum sig. Leikskólakennararnir sjá ekki sólina fyrir henni og þar af leiðandi kemst hún upp með alls konar vitleysu. Hún hefur til dæmis fengið ís og súkkulaði kex - nokkuð sem stóra systir þurfti að bíða nokkuð lengur eftir að fá. Mía er svakalegur vinnuforkur, hún má aldrei vera að því að sitja kyrr og er alltaf eitthvað að sýsla - það algengasta er að rífa fötin sín úr kommóðunni og setja þau í óhreinatauið en hún getur einbeitt sér að því í lengri tíma.
23.4.2007 | 20:02
Afmælisstúlkan
Nóg að frétta af fjölskyldunni en byrjum á byrjuninni. Hún er orðin 1 árs, nýfædda stúlkan okkar. Afmælinu var fagnað í sumó ásamt fjölskyldunni og það var sko mikið fjör. Sigrúnu Emilíu fannst skemmtilegast þegar sunginn var fyrir hana afmælissöngurinn og þá brosti hún með nefinu af gleði.
Á eins árs afmælinu er Sigrún Emilía farin að ganga meira en skríða, komin með 5 litlar tönnslur, notar skó nr.18.5, finnst systir sín stórkostleg, klifrar allt sem hún getur, finnst playmo mjööög spennandi og finnst ekkert notalegra en klifra upp í rúm til systur sinnar og fletta bók. Hún er svo fyndin og skemmtileg og það er alveg ótrúlegt að þegar við vöknuðum einn daginn var hún ekki ungabarn lengur heldur orðinn krakki, með skoðanir, langanir og frekjurass. Svo byrjaði Sigrún Emilía á leikskóla í síðustu viku, hún fékk pláss á Sólgarði mömmu og pabba til mikillar gleði. Meira síðar-vonandi fljótlega....
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.5.2007 kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2007 | 22:40
Jæja...
...hvað segið þið - er kominn tími á að skrifa eitthvað hér inn... svei mér þá held það bara. Allt gott að frétta fyrir utan eilífar dagmömmuáhyggjur - pabbinn sem ætlaði að taka við blogginu um leið og barninu er fussandi og sveiandi allan daginn við dagmömmur út um allan bæ - meira að segja Mosfellsbæ - um hvað ástandið er ömurlegt og engin úræði í boði og skítalaun fyrir dagmömmur og allt í volli.... En við vonum vissulega það besta og að eitt stykki dagmamma skjótist upp á yfirborðið fyrir 1.maí. Annars erum við á fullu við að einfalda lífið alveg svakalega mikið svo við getum átt smá rólegheita stundir á hverjum degi fjölskyldan - sem þýðir að forgangsröðunin er soldið breytt - sund, gönguferðir, góður matur, bókalestur og almennt hangs ganga fyrir tiltekt, símanum, sjónvarpinu og þvottinum, amk svona þegar við getum. Það er sem sagt nóg að gera við að gera sem minnst af því það er svo mikið að gera - eða þannig.
Í fréttum er þetta helst:
Sigrún Emilía er farin að ganga! Hefur mest tekið 10 skref og æfir sig á hverjum degi. Sólveig Halla dansaði á ballettsýningu og var "gekkt flott" og foreldrum sínum til mikils sóma. Sama dag varð Ása frænka fertug og fékk óvænta afmælisveislu og heimsókn frá Kristínu í afmælisgjöf. Arnar er farinn að tala og kallar báðar systurnar Míu. Hann lærði líka mjög snemma að segja traktor og blaðra. Ég fór og heimsótti Ragnheiði í Lundi og fékk að sjá Rósu litlu dafna svo vel en hún er væntanleg í heiminn í júní. Þórir og Helga eignuðust stelpuskott í febrúar og Sverrir og Katrine flytja til Árósa 1. maí. Sigrún Emilía er komin með 5 tennur og tígó og rífur og tætir eins og henni sé borgað fyrir það í banönum. Jökull varð 5 ára í febrúar og Sölvi spurði Míu frænku sína hvort hún væri kannski soldið vitlaus fyrst hún kynni ekki að púsla. Ég er byrjuð í nýrri vinnu sem verkefnastjóri hjá lagadeild Háskóla Íslands og hef nóg að gera og Eiki og Sigrún Emilía njóta þess að vera saman á meðan. Og svo örugglega fullt meira sem ég man ekki í augnablikinu.
Svo... ef þið eigið einhvern tíma leið framhjá Háskólanum í hádeginu og langar að kíkja á Kaffitár eða bara í eina góða Júmbó á FS kaffistofu þá endilega bjallið í mig - ég er sko alltaf til.
Ps. tölvan okkar er alveg að gefa upp öndina svo myndirnar streyma ekki beint inn en þær eru á to do listanum og koma inn bráðum... betra seint en aldrei er einmitt nýja mottóið...
23.1.2007 | 22:48
Letilíf
Nú er ég algjörlega að tapa mér í letilíferni-er svo mikið að taka út notalegheitin áður en ég fer að vinna að þau eru eiginlega hætt að vera notaleg- eða þannig. Ég er komin með krónískan hausverk af því að vaka alltof lengi frameftir og króníska magapínu eftir að borða súkkulaði á hverju kvöldi. Get samt ekki hætt að hanga í tölvunni og skoða ættleidd börn frá Kína (sem eru æði btw), púslað wasgij púsl (sem eru rosa skemmtileg) og horft á gjörsamlega allt sem er í sjónvarpinu því mér finnst eins og ég geti aldrei gert þetta aftur þegar ég er loksins komin í vinnuna og þarf að vakna kl. 7 á hverjum morgni - guð hjálpi mér og öllum sem ég bý með! Held samt að ef ég er nógu lengi í ruglinu verður vinnan eins og vin í eyðimörkinni og ég mæti þangað hoppandi glöð - eigum við ekki bara að segja það?
Annars er almennur hressleiki á heimilinu, Eiki vinnur mikið áður en hann fer í sitt leyfi, Sólveig Halla er mjög spennt yfir þorrablóti í leikskólanum á föstudaginn þar sem boðið verður upp á ljúfengan mat eins og hún orðaði það sjálf og Sigrún Emilía er algjör brjálæðingur - er farin að standa upp við allt og ganga meðfram og stinga öllu upp í sig og allt það en er samt alltof lítil fyrir svona hetjustæla svo hún er í gjörgæslu mestan hluta dagsins.
Já og eitt enn: Sólveig Halla er komin með StarWars æði og vill vera Lilja prinsessa á Öskudaginn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2006 | 01:47
Gleðileg jól
Þá er bara komið að því, jólin mætt á staðinn. Sökum anna og gubbupesta hefur lítið verið sagt hér frá öllu því skemmtilega sem við gerðum í desember en það verður bætt úr því síðar. Þó er óhætt að segja frá því að við Sólveig Halla fórum á jólaball á Hagaborg þar sem ég komst að því að Þyrni gerði ekki hósi hátt heldur hóf þyrnigerðið sig hátt - sem útskýrir ýmislegt - en ég er sem sagt búin að syngja textann vitlaust síðan ég var kannski svona þriggja ára og ekki dottið í hug að hann væri vitlaus, hef bara endalaust velt fyrir mér hvað þetta hósi þýði...
Elsku vinir og vandamenn nær og fjær, við óskum ykkur gleði og friðar á þessum jólum sem og alla tíð og hlökkum til að hitta ykkur á nýja árinu.
Jólajólakveðjur frá Sillu, Eika, Sólveigu Höllu og Sigrúnu Emilíu
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2006 | 23:50
Finnski félaginn
Ókei ég veit að Eiki er nýbúinn að vera með diskó fílingen á blogginu sínu en þetta er svo brjálæðislega fyndið að ég fæ aldrei nóg
http://www.youtube.com/watch?v=ZJj6d5QSYaE
Finnski diskódansinn rifjaðist nefnilega upp fyrir mér um síðustu helgi þegar við fjölskyldan brugðum okkur í Árbæjarsafn ásamt góðum vinum og kíktum á diskó sýningu í leiðinni. Í Kornhlöðunni í Árbæjarsafni er búið að setja upp míní útgáfu af gamla diskóstaðnum Hollywood og þeir mágar Sverrir og Eiríkur stóðust ekki mátið...



Vinir og fjölskylda | Breytt 7.12.2006 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2006 | 00:39
22. nóvember
Var auðvitað stórafmælisdagur í fjölskyldunni. Eiki varð 33 ára og Sigrún Emilía 7 mánaða - alveg svooona stór. Fyrir þeirra hönd þakka ég allar góðar kveðjur í tilefni dagsins. Afmælisdagurinn hans Eika markar svo alltaf tímamót í fjölskyldunni - nú er "löglegt" að hlakka til jólanna, hlusta á jólalög og taka fram jólaseríurnar - jibbí skibbí!!
Alla sem langar í kakó og vilja syngja jólin jólin með mér og Svanhildi Jakobs eru velkomnir í heimsókn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2006 | 01:17
Einhvern veginn
hef ég í einfeldni minni alltaf haldið að allir eldri en svona átta ára kynnu að flétta hár. Hreyfingin er mér svo töm að ég skil ekki hvernig er ekki hægt að kunna það svona líkt og manni finnst undarlegt að fullorðið fólk kunni ekki að hjóla. Í tilefni feðradagsins á sunnudaginn var feðrum boðið á hárgreiðslustofu hér í bæ ásamt dætrum sínum þar sem þeim var markvisst kennt að flétta á þeim hárið. Þar sem ég veit að Eiki myndi aldrei láta hafa sig í svona hóphitting bauð ég fram aðstoð mína. Hann sér um að koma Sólveigu Höllu á fætur og í leikskólann á morgnanna og það er leiðinlegt fyrir hann að geta ekki fléttað á henni hárið svo lúsin sem er alltaf að ganga eigi ekki greiða leið þangað. Óhætt er að segja að einbeitingin hafi skinið úr andliti pabbans þegar æfingin hófst og hann vandaði sig svakalega þrátt fyrir kjánalegt flissið í mömmunni. Árangurinn var glæsilegur - næst á dagskrá er að læra að skipta til hliðar, gera pulsutígó og fastar fléttur.
15.11.2006 | 22:19
Tengdasonurinn
14.11.2006 | 21:39
Alltaf
finnst mér jafn gaman að eiga afmæli. Hvernig er svo sem annað hægt þegar afmælisdagurinn einkennist af þvílíkum lúxus. Ég var vakin af krakkakrílunum og Eika með afar fögrum afmælissöng, afmælisgjöfum og afmælisköku frá tengdamömmu, í hádeginu bauð elskulegur eiginmaður minn mér út að borða og eftir vinnu hélt mamma fyrir mig ekta afmælisboð með bananarúllu og öllu tilheyrandi. Svo fékk ég hringingar og kveðjur frá vinum og vandamönnum allan daginn og meira að segja í nokkra daga á eftir. Hvernig er hægt að vera annað en ánægð með svona dag og hlakka svo til næsta.... þó ég sé formlega komin á fertugsaldurinn....
Takk fyrir mig!