Jæja

Við Gullfoss

Þá er óhætt að segja að sumarfríinu sé formlega lokið. Dagskráin var nokkuð þétt og skemmtileg: Fjórar ferðir í sumarbústaði, Hornafjörður og Holta- og Landsveit og helmingurinn af fjölskyldunni fór á ættarmót á Snæfellsnesi. Á sínu 4 mánaða æviskeiði hefur Sigrún Emilía komið til Akureyrar, í Landmannalaugar og langleiðina inn í Lónsöræfi, séð Gullfoss og Geysi, Jökulsárlón og Seljalandsfoss, farið í berjamó, sund, tvisvar að Sólheimum og 6 sinnum í Hvalfjarðargöngin. Geri aðrir betur. Auk þess hefur hún þyngst um 3 kíló, lært að velta sér og sitja í stutta stund, fengið kvef og eyrnabólgu, hlegið ógurlega að systur sinni og aðeins minna að mömmu. Næst á dagskrá er að klippa lubbann, sundnámskeið hjá Snorra og ferð til Kaupmannahafnar í október.

Sólveig Halla er aftur á móti búin að missa fyrstu tönnina og er með aðra laflausa. Móðurinni fannst það heldur snemmt þar sem litla barnið hennar er bara 4 ára en svo heppilega vildi til að tannsi kom í heimsókn sama dag og staðfesti að þetta væri alveg eðlilegt. Í fyrsta lagi en eðlilegt samt. Sólveig Halla er búin að vera 2 vikur á nýju deildinni sinni, Fuglalandi, sem er fyrir elstu krakkana á Hagaborg. Hún þekkir orðið ansi marga stafi, getur skrifað nafnið sitt nánast hjálparlaust og kann að leggja saman með fingrunum. Hún er með ólíkindum góð við systur sína og sér henni fyrir endalausu skemmtiefni, nema þegar Mía er búin að kúka, orgar mjög hátt eða rífur í hárið á henni. Sólveig Halla hlakkar mikið til að verða 5 ára, hún er búin að fá skrilljón hugmyndir að afmæliskökum og pantar göt í eyrun.

Búið er að setja inn myndir úr sumarfríinu inn í nýtt myndaalbúm, tengillinn er í tenglalistanum undir myndaalbúm. Albúmið er lokað en endilega sendið tölvupóst ef þið viljið fá lykilorðið og skoða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband