Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

2 mánuðir

2 mánuða

Jæja þá eru allir komnir heim heilir á höldnu. Stórfjölskyldan dreifði sér um löndin og miðin síðastliðnar vikur og er sem betur fer komin heim í einu lagi. Feðginin höfðu það gott og gaman í Þýskalandi í svaka HM stemmningu og 30 stiga hita. Mæðgurnar höfðu það líka mjög gott á Akureyri þar sem var stjanað við þær eins og vanalega. Elvar frændi stóð sig rosa vel og er nú orðinn stúdent frá MA-gott hjá honum. Og svo er minnsta manneskjan auðvitað orðin 2 mánaða. Hún stendur sig alltaf jafn vel elsku hjartað okkar og brosir og burrar til skiptist þegar hún er vakandi. Setti inn nokkrar nýjar myndir í albúmin-það koma fleiri fljótlega.

Sumar (vonandi bráðum amk) kveðjur af Hjarðó!

 


6 vikur

Brosfríður

Og tíminn hreinlega flýgur áfram, þó við þurfum að bíða ansi lengi eftir sumrinu. Það hentar okkur mæðgum reyndar ágætlega í augnablikinu þar sem Sigrún Emilía vill gjarnan vaka frameftir til 2 á nóttunni og mamman jafnvel ennþá lengur. Svo er sofið fram á hádegi, við erum sem sagt búnar að snúa sólarhringnum ágætlega við. Vonum bara að magapílurnar eldist af barninu þegar sumarið kemur loksins. Sigrún Emilía heldur áfram að dafna vel, súðavíkurlærin eru mætt á staðinn og kinnarnar fara alveg að ná niður á hné. Hún fór í skoðun á Heilsó í fyrradag, sýndi allar sínar hundakúnstnir og var ægilega góð svo mamman var voða stolt eins og venjulega.

Það er svo nóg að gera hjá fjölskyldunni á næstunni. Sólveig Halla og Eiki fara til Þýskalands í næstu viku og þá erum við Sigrún Emilía að hugsa um að skreppa til Akureyrar í útskrift hjá Elvari. Svo eru ansi margir sem við eigum ennþá eftir að hitta og gaman væri að sjá sem fyrst.

Við sendum öllum þeim rosalega mörgu vinum og ættingjum sem eiga afmæli í júní bestu afmæliskveðjur og hamingjuóskir til Agnesar frænku sem stóð sig svo ótrúlega vel í skólanum Glottandi


Lísa eða Lotta - hvor er hvað?

Sofandi systur

Það er alveg ótrúlegt hvað systurnar Sólveig Halla og Sigrún Emilía eru líkar. Eiki hafði orð á því að það sé undarlegt að eignast tvíbura með 4 ára millibili. Ekki er nóg með að þær séu líkar í útliti heldur virðist Sigrún Emilía ætla að hafa mjög líkt skap og systir sín og vera jafn mikill kúrari, nautnaseggur og letiblóð og aðrir í fjölskyldunni... Hún lygnir aftur augunum í heitu vatni alveg eins og pabbi sinn og henni finnst ekkert betra en að liggja í klessu upp við mömmu sína í bólinu. Hún er mjög skapgóð eins og systa, grætur sjaldan og er farin að brosa í hvert skipti sem einhver hefur tíma til að tala við hana. Þeim finnst líka gott að kúra hjá hvor annarri, 4 ára stelpunni okkar tókst að svæfa þá 4 vikna um daginn og sjálfa sig í leiðinni.

Setjum inn nokkrar myndir sem til eru af Sólveigu Höllu þegar hún var ný svo þið getið séð líkindin. Því miður fæddist hún samt áður en stafrænar myndavélar urðu til á hverju heimili svo ekki er hægt að bera þær systur alveg saman á tölvutæku formi.

Minnum svo á athugasemdir og gestabók-viljum endilega sjá hverjir koma í heimsókn.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband